06 ágúst 2006

Amerískar Pönnukökur


225 gr sigtað hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 tsk flórsykur
250 ml mjólk
2 egg
55 gr brætt smjör

Hrærið saman smjör, mjólk og egg. Blandið þurrefnum saman í skál og hellið mjólkurblöndunni smátt og smátt saman við. Hrærið saman með sleif eða þeytara. Bakið á viðloðunarfrírri pönnu. Þessi uppskrift nægir í 10 stórar eða 18 litlar pönnukökur. Framreiðið með smjöri og hlynsírópi.

23 maí 2006

Núðlur með kókos og rauðu karrý


Fyrir 6

1 pk núðlur
2 ds kókosmjólk
3 msk olía
4 msk sweet chili sósa
1 saxað hvítlauksrif
2 msk soya sósa
2 litlar gulrætur í strimlum
100 gr hvítkál í srimlum
100 gr vorlaukur eða blaðlaukur í strimlum
2 msk rautt karrý
3 soðnar kjúklingabringur í strimlum

Sjóðið núðlurnar í 5 mínútur og kælið í miklu af köldu vatni - sigtið. Svitið grænmetið í olíunni með karrý og hvítlauk. Setjið kókosmjólk útí ásamt soya og sweet chili. Sjóðið stutta stund eða þar til grænmetið er orðið meirt. Setjið núðlur og kjúkling útí og sjóðið stutta stund. Þennan rétt er upplagt að laga í wok-pönnu.

25 apríl 2006

Karrý- kókossúpa með kjuklingastrimlum

Fyrir 6 pers.

1 stk rautt chilli
50 gr laukur
3 msk olía
1 tsk karrý
½ tsk turmeric
500 ml kjúklingasoð
-eða vatn og kjúklingakraftur
Salt
Pipar
2 dósir kokosmjólk
250 ml rjómi
½ + ½ rauð og græn paprika
Maisena mjöl eða smjörbolla (hveiti og smjör)
1 soðin skinnlaus kjúklingabringa í ræmum

Chili er fræhreinsað og saxað smátt ásamt lauknum. Svitið chilli og lauk síðan í olíunni og bætið karrý og turmeric saman við .Hellið kjúklingasoði saman við og látið sjóða rólega stutta stund. Maukið með töfrasprota og bætið síðan kokos, og rjóma saman við. Sjóðið stutta stund, kryddið til með salti og pipar, og karrýi ef þurfa þykir. Þykkið súpuna með maisena eða smjörbollu. Saxið paprikuna fínt eða í litla teninga og bætið út í súpuna að síðustu ásamt kjúklingastrimlum. Látið sjóða og framreiðið.

15 mars 2006

Brownie


120 gr Súkkulaði
50 gr smjör
2 msk sterkt kaffi
1 bolli sykur
1/4 tsk Salt
5 egg
3/4 bolli Hveiti
1/4 Bolli Kakó ( Má sleppa)
1 Bolli Saxaðar valhnetur
1 Bolli Saxað Sírius rjómasúkkulaði

Bræðið saman súkkulaði, smjör og kaffi. Hrærið saman sykur, egg og salt þar til blandan er létt og ljós. Blandið súkkulaðiblöndunni saman við. Hveiti og kakó, ef þið notið það er blandað í eggjablönduna. Hnetum og rjómasúkkulaði blandað saman við . Bakið við 170°C í 40-45 mín eða þar til kakan losnar frá brúnum. Kælið og skerið í brownies-teninga. Framreitt með rjóma eða vanilluís

09 mars 2006

Kleinuhringir


200 ml mjólk eða vatn
1 1/2 msk þurrger
3 msk sykur
3 egg
50 g lint smjör
1 tsk vanilludropar
Rifinn börkur af 1 sítrónu
550 g hveiti
steikingarfeiti

Vökvinn velgdur þar til hann er nálægt 37°C og hellt í skál. Gerið sett út í ásamt 1-2 tsk af sykri og látið standa þar til gerið er farið að freyða. Þá er afgangurinn af sykrinum settur út í ásamt eggjum, smjöri, bragðefni og hluta af hveitinu. Hrært vel og meira hveiti bætt út í smátt og smátt, þar til deigið er vel hnoðunarhæft og klessist ekki við hendur en er þó fremur lint. Hnoðað vel, mótað í kúlu, sett í hveitistráða skál og látið lyfta sér við stofuhita í 30-45 mínútur. Þá er það slegið niður og flatt út í 1 cm þykkt, eða tæplega það. Hringir stungnir úr því (8 cm þvermál) og afskurðinum svo hnoðað saman í kúlu sem er flött út og fleiri hringir stungnir út - það ættu að verða u.þ.b. 14-18 hringir úr deiginu. Raðað á bökunarpappírsörk og látnir lyfta sér á meðan feitin er hituð. Þegar hún er 180-190°C eru kleinuhringirnir settir gætilega út í, 3-5 í senn eftir stærð steikingarpottsins, og steiktir í 1 1/2-2 mínútur á hvorri hlið (þurfa reyndar oftast heldur styttri tíma þegar búið er að snúa þeim). Teknir upp með gataspaða og látið renna af þeim á bökunarpappír. Bestir volgir og þá kannski með flórsykri sigtuðum yfir, eða þeir eru látnir kólna og þykkum glassúr dreypt yfir. Þeir eru samt alltaf langbestir nýsteiktir.

Naan Brauð


200 ml mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger eða 5 tsk
600 gr hveiti
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
4 msk ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180g)
1 msk maldon-salt
1 msk indversk kryddblanda(Garam Marsala t.d.)
25 gr smjör
1-2 hvítlauksrif, smátt söxuð
búnt af fersku kóríander

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið deigið þar til það verður mjúkt og bætið við hveiti ef ykkur finnst það og blautt. Látið deigið hefast í skál í 1 klst. við stofuhita. Hitið ofninn í 275°C eða 210-220 blástur. Blandið kryddinu og saltinu saman á diski. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar út nokkuð þunnt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötuna sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Þið getið líka bakað þau á efri grind á gasgrili. Bræðið smjörið í potti og dreypið því strax yfir heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir allt saman. Berið strax fram meðan brauðin eru heit. Einnig er hægt að nota þessa uppskrift í Pítubrauð, en hafið þá brauðin þykkari og sleppið kryddi.

19 febrúar 2006

Fiskisoð og Grugghreinsun

U.þ.b. 1500 ml

150 gr fennel – grófsaxað
120 gr laukur í þunnum sneiðum
Hvíti hlutinn af einum blaðlauk í sneiðum
50 ml ólífuolía
1000 gr bein af flatfisk
-skoluð og blóðhreinsuð
60 ml hvítvín
1,5 litrar kalt vatn
3 sneiðar sítróna
3 steinseljustilkar
1 grein estragon
1 grein coriander
1 stk stjörnuanis
10 hvít piparkorn

Svitið grænmetið mjúkt, í olíunni án þess að það taki lit. Bætið beinum saman við og svitið áfram í eina mínútu, bætið síðan hvítvíni saman við. Sjóðið niður um helming. Hellið köldu vatninu saman við og látið sjóða á ný. Bætið sítrónusneiðum, kryddjurtum, stjörnuanis og piparkornum saman við. Látið sjóða rólega í 20 mínútur. Fleytið allan sora af soðinu jafnóðum og hann myndast. Sigtið í gegnum síudúk og látið botnfalla. Ausið síðan soðið upp í annað ílát og skiljið eftir botnfallið. Kælið eða frystið. Ekki nota gulrætur í fiskisoð sem á að grugghreinsa því að það kemur óæskilegur litur á seyðið.

Munið að lykillinn af góðu og fallegu fiskisoði er: Svita grænmetið – sjóða rólega – fleyta - botnfall burt.

Grugghreinsun á soði:
1,5 lítrar fiskisoð
12 eggjahvítur
100 gr blaðlaukur
100 gr sellerý
100 gr fennel
50 gr kryddjurtir að eigin vali
Salt ef þurfa þykir

Setjið allt grænmeti og kryddjurtir í matvinnsluvél og saxið fínt. Setjið grænmetið í skál og sláið eggjahvítum saman við. Kælið soðið niður í 30-35 gráður og blandið eggjahvítuhrærunni saman við. Setjið yfir meðalhita og rennið sleif eftir botninum á pottinum öðru hvoru á meðan suðan er að koma upp. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að eggjahræran brenni í botninum. Þegar suðan kemur upp þá skal sjóða mjög rólega í 30 mínútur. Látið síðan standa í 15 mínútur áður en síað er. Ausið seyðið síðan upp úr pottinum og hellið í gegnum síudúk. Forðist að taka groggið með. Hafið fínt sigti undir og gróft efst (síudúkur í miðjunni). Ekki hella seyðinu beint úr pottinum í síudúkinn. Munið eftir að bragða til soðið áður en grugghreinsun fer fram. Það er mjög mikilvægt því að það er ekki hægt að bæta neinu í seyðið eftirá því þá gruggast seyðið.

16 febrúar 2006

Heilsu-nammi

1,5 bolli kókosmjöl
1,5 bolli cashew-hnetur
1/2 tsk salt
1/2 bolli döðlur

Allt kurlað saman í matvinnsluvél. Steypt í form og kælt. Skorið síðan niður í hæfilega bita.

Heilsubrauð

Þetta brauð er ofur-heilsusamlegt og bragðgott:

5 bollar heilhveiti
12 tsk lyftiduft
2,5 tsk salt
2 bollar sólblómafræ
2 bollar graskersfræ
1,5 bolli hörfræ
3 msk síróp
1 liter AB-mjólk

Blandið saman þurrefnum og fræjum. Blandið saman sírópi og AB-mjólk, hrærið saman við þurrefnin. Setjið í form og bakið 90 mín við 180 gráður, í blástursofni.

14 febrúar 2006

Pizzusnúðar


16 stykki
Deig:
10 gr ger
125 ml volgt vatn
1/2 tsk salt
1 msk ólífuolía
200 gr hveiti

Fylling:
70 gr tómatmauk
1 fínt saxaður hvítlauksgeiri
1 tsk þurrkað oregano
1/2 tsk salt
örl. pipar
200 gr rifinn mossarella-ostur

Hnoðið saman deigið í sprungulausa kúlu og látið hefast undir stykki, á volgum stað í 45 mínútur. Fletjið út í c.a. 35x35 cm ferning. Blandið fyllingunni saman og smyrjið jafnt á deigið. Stáið um 175 grömmum af ostinum yfir og vefjið upp í rúllu. Skerið í 16 jafna snúða og komið fyrir á bökunarplötu. Best að hafa bökunarpappír undir. Látið hefast aftur í 30 mínútur og stráið síðan rest af osti á snúðana. bakið í 15 mínútur við 200 gráðu hita.

09 febrúar 2006

Rouille - sósa

Þessi sósa er yfirleitt framreidd með Bouillabaisse-súpu á brauðsnittu. Rouille þýðir "ryð" á íslensku og er því vísað til lits sósunnar, en hún á að vera ryð-rauð að lit.

2 stk hreinsaðir chilipipar
4 stk hvítlauksgeirar
100 ml extra virgin ólífuolía
1 eggjarauða
3 franskbrauðsneiðar á skorpu
1 tsk sjávarsalt
1 tsk litsterkt paprikuduft
50 ml bouillabaisse-soð

Saxið chili og hvítlauksgeira. Setjið í mortel ásamt salti, 1 msk af olíu og paprikuduft. Merjið í fínt mauk. Bleytið brauð í heitu fiskisoði og kreystið síðan mesta vökvann frá. Blandið saman við maukið og hrærið olíunni saman við ásamt eggjarauðu. Hrærið saman flauelsmjúka sósu. Gæti þurft að þynna út með soði. Sósan á að geta það þykk að hún standi sér á brauðsnittu.

Lambaterrine með Kúrbít og Tómatconfit

Franska nafnið á réttinum er:
"Terrine D´agneau aux courgettes et tomates confites"

1 kg Fituhreinsuð Lambafille
2 kg Kúrbítur
1 kg Stórir tómatar
200 gr Saxaður laukur
10 bl Matarlím
1 dl Extra virgin Ólífuolía
Salt og pipar
5 stk Basil lauf

Aðferð:
1-Kryddið og steikið Lambafilletið rósrautt í miðju, á pönnu og kælið.
2-Skerið kúrbítinn í þykkar sneiðar og síðan í fernt.
3-Setjið ólifuolíuna í pott og setjið á vægan hita.
4-Setjið kúrbítin í pottinn og sjóðið við vægan hita í 40-60 mínútur.
5-Maukið tómatana í matvinnsluvél og bætið í pottinn.
6-Kryddið til með salti og pipar ásamt basil-laufum.
7-Sjóðið saman í 15 mínútur og bætið matarlími saman við.
8-Kælið fyllinguna örlítið og smyrjið terrine form með olíu.
9-Setjið fyllingu í botninn á forminu og síðan kjöt ofaná.
10-Endurtakið og endið á fyllingunni.
11-Kælið vel og skerið í þykkar sneiðar, eina á mann.
12-Framreitt með góðu brauði ásamt salati og olíu.

07 febrúar 2006

Bouillabaisse Terrine með Rouille sósu

250 gr skötuselshali
250 gr karfi
250 gr langa eða steinbítur
250 gr stór hörpuskel
250 gr pillaður humar eða tígrisrækjur

200 gr miðhluti af fallegum blaðlauk
250 ml gott, tært fiskisoð
100 ml ólífuolía
4 hvítlauksgeirar - marðir
1 fennel - þunnt sneiddur
1 laukur - þunnt sneiddur
1 gulrót - þunnt sneidd
2 vel rauðir tómatar
10 gr saffrran
2 greinar ferskt blóðberg
10 gr salt
cayennapipar á hnífsoddi
6 stykki matarlímsblöð

Losið sundur blaðlaukinn og blancerið og snöggkælið. Notið blaðlaukinn til að klæða formið að innan. Svitið golrætur, rest að blaðlauk, hvítlauk, lauk og fennel í 7 mínútur, í olíunni. Bætið fínsöxuðum tómötum við og eldið áfram í 5 mínútur. Hellið fissoðinu í pottinn ásamt saffran, blóðbergi salti og cayennapipar. látið sjóða rólega og bætið skötusel útí. Látið sjóða rólega í 2 mínútur og bætið rest af fisk saman við - humar í rerstina. Látið sjóða áfram í 4 mínútur. Færið fiskinn upp úr og kælið. lagið hlaup úr soðinu. Raðið fisknum og grænmetinu fallega í terrine-form og hellið hlaupi yfir. Hyljið með blaðlauk og kælið vel í 12 klst. Framreitt með Rouille á brauði.

Marinerað Laxa og Skötusels Terrine

300 gr hreinsaður skötuselshali
300 gr laxaflak
3 lime - safinn og julienne
1 laukur - fínsaxaður
100 gr pimento pipar - niðurlagður
150 ml gott fiskiaspic
Basillauf
Corianderlauf
Dillgreinar
2 negulnaglar - malaðir
Nokkur rósapiparkorn - mulin
Muskathneta - möluð
Salt og pipar

Sneiðið fiskinn í þunnar sneiðar á fat eða disk. Hellið limesafa jafnt yfir ásamt julienne. Stráið lauk yfir og kryddið með muskati, rósapipar, negulnöglum, salti og pipar. Leggið plastfilmu yfir og latið standa í kæli í 30 mínútur. Klæðið terrineform með pimento-pipar og leggið lax og skötusel til skiptis í formið. Setjið kryddjurta-lauf á milli. Hellið hlaupi alltaf á milli einnig. Gæti verið sniðugt að kæla formið eftir hvert lag (láta hlaupið stífna). Kælið síðan vel í 4-6 klukkustundir hið minnsta. framreitt með góðu brauði og vinaigrette.

27 janúar 2006

Kartöflu-Tómatsúpa með rifnum osti

Þessi súpa er kraftmikil og góð súp t.d. í hádeginu með góðu brauði.

1 msk smjör
1 msk ólífuolía
200 gr saxaður smálaukur
500 gr kartöflur, afhýddar og skornar í smáteninga
500 ml grænmetissoð
400 gr fínhakkaðir tómatar úr dós
70 gr tómatmauk
gróft salt
6 dropar tabasco sósa
150 gr rifinn ostur

Svitið laukinn í ólíunni og smjörinu. Bætið öllu öðru saman við, nema osti og látið sjóða rólega í 20 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar meirar. saltið ef þurfa þykir. Hellið í 4 skálar og stráið osti yfir. Skreytið með coriander-laufum.

25 janúar 2006

Thai-súpa með chilibrauði

Hvað er betra í skammdeginu en orkurík, bragðmikil og framandi mauksúpa. Þessi súpa er alveg frábær:

Súpan fyrir 4:
400 gr kartöflur
2 stk blaðlaukar, hvíti hlutinn
1 msk smjör
2 msk rifið engifer
800 ml kjúklingasoð
50 gr þurrkaðar rís-núðlur
250 ml rjómi
1/2 lime-safi og rifinn börkurinn
1/2 tsk sambal oelek (thai-krydd)
Saxaður graslaukur til skreytinga

Chilismjör á brauðið:
1/2 tsk sítrónusafi
1 tsk púðusykur
25 gr smjör
1/2 tsk sambal oelek (thai-krydd)

Afhýðið kartöflurnar, skerið í þunnar skífur og skolið upp úr köldu vatni. Látið vatnið renna vel af. Saxið blaðlaukinn og svitið í smjöri, í stórum potti. Bætið kartöflum, engifer og kjúklingasoði saman við. Látið sjóða rólega í 25 mínútur. Sjóðið núðlurnar samhvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Maukið grænmetið í súpunni með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Bætið síðan rjóma, lime og thai-kryddi saman við. Saltið ef þurfa þykir. Skiptið núðlunum í 4 skálar. Látið súpuna sjóða og hellið yfir núðlurnar og stráið graslauk yfir.

Chilismjör:
Blandið öllu saman og smyrjið þykkar brauðsneiðar með smjörinu. Ristið gullinbrúnt í ofni.