20 desember 2007

Hreindýrasteik með hefðbundinni Villisósu

Fyrir 6

Innihald:
1,5 kg hreinsaður hreindýravöðvi, (Læri eða Hryggur)
400 gr afskurður og bein
2 stk gulrætur
100 gr sellerýstilkar
5 stk einiber
2 stk lárviðarlauf
1,2 lítrar kalt vatn
250 ml rjómi
150 ml dökkt portvín
salt og pipar
gráðostur
ribsberjahlaup

Aðferð:

Sósan:
1 Biðjið kjötkaupmanninn að höggva niður beinin fyrir ykkur í sósuna.Brúnið þau í örlítilli olíu ásamt afskurðinum í víðbotna potti.Kryddið með salti og pipar.
2 Þegar beinin eru byrjuð að taka lit, skerið þá grænmetið gróft niður og bætið í pottinn.Brúnið áfram og takið síðan pottinn af hitanum. Stráið örlitlu af hveiti yfir afskurðin og beinin og hrærið í með sleif. Hellið vatninu saman við og kryddið til með einiberjum, lárviðarlaufum. Látið suðuna koma upp hægt og rólega og sjóðið niður um helming. Fleytið allan sora af soðinu, jafn óðum og hann flýtur upp.
3 Sigtið soðið í annan pott og látið suðuna koma upp að nýju. Þykkið soðið með maisenamjöli ef þurfa þykir. Bætið portvíni og rjóma í sósuna og dekkið hana e.t.v. með sósulit. Smakkið sósuna til með kjötkrafti ef með þarf.
4 Að síðustu skal setja eina matskeið af gráðosti og c.a. tvær af ribsberjahlaupi í sósuna og hræra vel í. Látið sjóða stutta stund við vægan hita. Á þessu stigi gæti þurft að sigta sósuna aftur.
Steikin:
1 Skerið steikurna niður í c.a. 2ja sentimetra 100 gramma steikur (12 stykki). Berjið létt á steikurnar með kjöthamri. Brúnið þær vel í olíu á vel heitri pönnu og kryddið með salti og pipar.
2 Setjið steikurnar í eldfast fat og steikið áfram í 10 mín í 250 gráðu heitum ofni (medium). Framreiðið með sósunni og tildæmis jólasalati, rauðvínssoðnum perum, steiktum kartöflum og léttsoðnu grænmeti (t.d. snjóbaunum og gulrótum). Einnig er hægt að steikja vöðvana heila. Brúnið þá fyrst á vel heitri pönnu og kryddið með salti og pipar. Setjið í 180 gráðu heitan ofn. Steikist í 15-40 mín allt eftir stærð vöðvana. Kjarnhiti 58 gráður.

11 desember 2007

Grískur Sítrónukjúklingur með Ólífum og Koriander

Þessi réttur var á Grískum matseðli sem ég setti saman í tilefni af Grískri menningarviku á veitingastaðnum Café Óperu í febrúar 1998

½ tsk kanelduft
½ tsk turmeric
1 stk kjúklingur (1.5 kg)
30 ml olífuolía
1 stór laukur sneiddur þunnt
1 msk fínsöxuð engiferrót
600 ml kjúklingasoð
2 stk sítrónur, skornar í báta og í tvennt
75 gr góðar ólífur
15 ml tært hunang
4 msk saxað ferskt koriander
Salt og pipar


1- Hitið ofninn í 190 gráður. Blandið saman í skál turmeric, kanel, salti og pipar og nuddið kjúklingin jafnt upp úr kryddblöndunni.

2- Hitið olíuna í stórum potti eða á stórri pönnu og brúnið kjúklingin jafnt á öllum hliðum. Færið kjúklingin upp á ofnfast fat.

3- Bætið lauknum á pönnuna og steikið í 3 mínútur. Setjið saxað engifer í pönnuna ásamt kjúklingasoði, látið sjóða við vægan hita. Hellið yfir kjúklinginn og lokið forminu með t.d. álpappír. Bakið í 30 mínútur.

4- Takið úr ofninum og bætið sítrónum, ólífum og hunangi saman við, bakið áfram í 30 mínútur loklaust.

5- Að bökun lokinni skal strá söxuðu kóriander yfir og smakka réttin til.
Skreytt með kórianderlaufum og framreitt strax.

05 desember 2007

Súkkulaði og Myntukaka

Þessa uppskrift notaði ég með frábærum árangri í veiðihúsinu að Kjarrá í þverárhlíð.
Frábær kaka og auðvelt að búa til. Hentar fullkomlega sem eftirréttur.

Súkkulaðifrauðið:
4 eggjarauður
75 gr sykur
75 ml vatn
300 gr brætt suðusúkkulaði
250 ml hálfþeyttur rjómi

Myntufrauðið:
250 ml rjómi
4 stk eggjarauður
75 gr sykur
6 stk matarlímsblöð
300 ml hálfþeyttur rjómi
3 msk myntulíkjör (Crème de Menthe)

Súkkulaðibotn:
2 egg og 4 eggjarauður
200 gr flórsykur
25 gr hveiti
25 gr kartöflumjöl
25 gr kakóduft

Aðferð súkkulaðibotn:
1-Blandið saman kartöflumjöli, hveiti og kakódufti og sigtið.
2-þeytið saman flórsykri og eggjum yfir hita, þar til hræran þykknar.
3-Bætið þurrefnum saman við.
4-Setjið í smurt form og bakið 18 mín við 180 gráðu hita.
5-Bregðið undir salamander í restina ef með þarf -kælið.

Myntumousse:
1-Sjóðið upp á myntu og rjóma og kælið örlítið.
2-Legerið sykur og eggjarauður saman þar til hræran er orðin frekar þykk.
3-Hellið þá smátt og smátt rjómanum saman við.
4-Leggið matarlímið í kalt vatn, kreystið og leysið upp í rjómablöndunni.
5-Kælið hræruna niður fyrir 40 gráður og blandið þeyttum rjóma saman við.
6-Hellið yfir súkkulaðibotnin og kælið vel áður en súkkulaðilagið er sett ofaná.

Súkkulaðimousse:
1-Sjóðið saman vatn og sykur í þunnt síróp.
2-Legerið eggjarauður í sírópinu þar til hræran fer að flykkna.
3-Bætið súkkulaðinu saman við og kælið örlítið.
4-Setjið þeyttan rjóma saman við síðast og setjið ofaná myntulagið.
5-Kælið vel og stráið kakódufti yfir kökuna.

18 október 2007

Alvöru Bernaise-sósa

6 eggjarauður
500 gr smjör
3-4 msk hvítvíns edik
1 msk þurrkað eða
ferskt saxað etragon (drekamalurt)
Salt
Svartur pipar úr kvörn
Karrý á hnífsoddi
Paprikuduft á hnífsoddi
½ msk Dijon sinnep
Kjötkraftur ef með þarf

Látið smjörið bráðna í rólegheitum við vægan hita. Passið að hræra ekki í smjörinu því að ætlunin er að fleyta fituna ofana af grogginu/mjólkinni sem myndast í botninum, seinna meir. Eggjarauðurnar eru þeyttar vel saman ásamt ediki og kryddi, yfir heitu vatnsbaði. Varist að láta eggjarauðurnar hitna um of. Hræran verður að vera ljós og létt. Takið af vatnsbaðinu og hrærið stöðugt í á meðan smjörinu er hellt saman við, smátt og smátt. Það gæti þurft að setja matskeið og matskeið af volgu vatni ef hræran verður of þykk. Kryddið til ef með þarf.

23 febrúar 2007

Quiche Lorraine með Spergilkáli og lauk

Þetta er frábær, léttur réttur t.d í hádeginu með góðu salati. Franskara en allt sem franskt er.
Deig:
250 gr hveiti
1 tsk salt
150 gr kalt smjör
1 eggjarauða
5o ml kalt vatn

Hnoðað saman og hvílt í kæli í að minnsta kosti 2 tíma. Fletjið síðan þunnt út og komið fyrir í springformi. Látið deigið ná c.a. 2-3 cm upp á hliðar formsins. Kælið.

Fylling:
125 gr reykt flesk í bitum (blanserað stutta stund)
2 litlir laukar í sneiðum (blanserað stutta stund)
250 gr spergilkál í bitum (Soðið í 3 mínútur í saltvatni)
60 gr rifinn ostur
4-5 dl mjólkursósa bætt með rjóma (Þykkt mjólk og rjómi með smjörbollu)
3 eggjarauður
3 egg
Múskat, salt og pipar

Látið allt vatn renna vel af káli, lauk og fleski, og setjið í bökuformið. Hrærið egg og ost út í kælda sósuna og hellið yfir fyllinguna. Bakið við 190 gráður í 35-55 mínútur allt eftir stærð formsins og þykkt bökunnar.



22 febrúar 2007

Súkkulaði-trufflukaka

Þessi kaka er mjög einföld, en merkilega ljúffeng sem desert eða með góðum kaffibolla. Þessa köku notaði ég mikið þegar ég var í veiðihúsinu að Kjarrá í Þverárhlíð. Ég lagaði hana alltaf með 2ja daga fyrirvara því mér fannst hún eiginlega betri þá. Ef ég man rétt þá gaf ég bláberjasorbet með.

150 ml vatn
100 ml glúkósi eða sykursíróp
4 blöð matarlím bleytt upp í köldu vatni
5oo gr dökkt súkkulaði
1 ltr léttþeyttur rjómi
Kakóduft
Þunnur svampbotn
Sterkt kaffi
Jarðaberjamauk

Bakaður er þunnur svampbotn, hann settur í botn á springformi. bleytið upp með kaffinu og smyrjið létt yfir botninn með jarðaberjamaukinu. Hitið saman vatn, glúkósa og matarlím. Brytjið niður súkkulaðið og bræðið saman við. Kælið örlítið og blandið rjómanum saman við og hellið í formið. Kælið vel og stráið kakói yfir.

16 febrúar 2007

Tiramisu

Tiramisu er með þekktari eftirréttum nútímans. Tiramisu sem þýðir "freistaðu mín" á ítölsku (Pic me up á ensku) er sennilega fundin upp skömmu fyrir fyrri heimstyrjöldina. Sagan segir að ítalskar húsmæður hafi gert þennan desert fyrir eiginmenn sína áður en þeir héldu á vígvöllinn. Desertinn átti að tryggja að eiginmennirnir kæmu aftur til sinna heitt elskuðu eiginkonu eftir stríðið. Til eru margar uppskriftir og útfærslur á þessum fræga desert en allar eiga þær sammerkt að innihalda mascarpone-ost, egg, sykur, kaffi, marsala og oftast ladyfingers eða kaffibleyttan svampbotn. Hér á eftir kemur uppskrift sem mér finnst hvað best að þeim uppskriftum sem ég hef prófað.

8 aðskilinn egg
300 gr sykur
1200 gr rjómaostur eða mascarpone
1 tsk sítrónusafi
7 blöð matarlím bleytt upp í köldu vatni
1/2 dl Marsala eða líkjör eins og t.d. Contreu
Kakóduft

Þeytið vel saman eggjarauður og 250 gr sykur. Bætið rjómaosti saman við smátt og smátt. Blandið vel saman - verður að vera kekkjalaust. Kreistið vatnið úr matarlíminu og setjið það í pott ásamt líkjör. Hitið rólega saman þar til matarlímið er uppleyst. Takið til hliðar og látið kólna örlítið. Stífþeytið eggjahvíturnar með 50 grömmum af sykrinum og blandið varlega saman við rjómaostahræruna. Hellið síðan matarlíminu saman við og blandið saman. Hellið strax yfir svampbotninn og setjið í kæli. Eftir um klukkustund má strá þunnu lagi af kakói yfir kökuna með sigti og kæla síðan áfram í nokkrar klukkustundir. Upplagt er að laga þessa köku daginn áður en hún skal borinn fram. Hún er jafnvel betri sólarhrings gömul. Framreiðið með jarðaberjum og góðu kaffi.

Þetta er dálítið stór uppskrift þannið að það má helminga hana og þá er hún nægilega stór fyrir 6 manns.

Svampbotn:
3 egg
60 gr sykur
60 gr hveiti
1/2 tsk lyftiduft

Þeytið vel saman egg og sykur. Setjið hveiti og lyftiduft saman við. Blandið saman stutta stund. hellt á smjörpappír á bökunarplötu og bakað fallega brúnt við 180 gráðu hita (c.a. 10 mín). Fjarlægið smjörpappírinn og setjið í botn á hæfilega stóru formi. Gæti þurft að skera út eftir stærð formsins. Hellið 2-3 dl af expresso kaffi eða mjög sterku kaffi yfir botninn. Kælið.

Auðunn Valsson