14 desember 2010

Kanelís

200 ml mjólk
2 kanelstangir (má nota kanelduft)
Skaf úr einni vanillustöng
10 eggjarauður
250 gr flórsykur
1 ltr þeyttur Rjómi

Setjið mjólk, vanillu og kanelstangir í pott og sjóðið rólaga niður mjólkina um 2/3. Kælið og fjarlægið kanelstangir. Stífþeytið flórsykur og eggjarauður. Hellið niðursoðinni mjólk saman við. Blandið rjóma saman við með sleif og setjið í 2 form. Frystið í minnst 18 tíma.

19 október 2010

Steiktur lax með volgu spergilkál og eplasalati - Paleo


2 x 200 gr Laxastykki
1 gott búnt klettasalat
150 gr græn afhýdd epli í litlum bitum
2 spergilkálshöfuð skorin í litla vendi eða bita
Safi úr einni sítrónu
Ólífuolía
Salt og pipar

Laxinn er steiktur á pönnu á hefbundin hátt. Færður upp á disk og haldið heitum. Pannan er hituð vel með olíunni og spergilkálið er steikt þar til það tekur lit. Eplunum er bætt á og pannan tekin af hitanum. Kryddað til með salti og pipar. Að síðustu er safanum hellt yfir og klettasalatið sett saman við. Framreitt með laxinum. Hafið vel af olíunni því að hún er í raun sósan með þessum rétti. 

Fyllt egg með avocado og parmaskinku - Paleo


4 harðsoðin egg
1 vel þroskað avocado
1 tsk tabasco sósa
1 tsk sítrónusafi
salt og Pipar
8 sneiðar parmaskinka

Eggin eru skorin í tvennt með beittum hníf. Takið eggjarauðurnar úr eggjunum og setjið í skál með avocado, tabasco, sítrónusafa og kryddið til með salti og pipar. Skiptið í 8 hluta og setjið í eggin með skeið. Má líka sprauta maukinu í. Leggið snúna parmaskinkusneið yfir. Framreiðið með góðu salati og olíu.

25 júní 2010

Tex Mex Kjúklingabringur a la Astro

Þegar ég var að vinna á Astro í Austurstrætinu skömmu fyrir síðustu aldamót, var réttur á matseðlinum kallaður Tex Mex kjúklingabringur. Þetta var vinsælasti rétturinn á matseðlinum og seldist í bílförmum. Galdurinn á bak við þennan rétt var marineringin á kjúklingnum.

Tex Mex marinering:
3 hvítlauksgeirar
2 msk dijonsinnep
1 tsk þurrkað coriander
1 tsk þurrkað fennel
2 msk hunang
1 dl appelsínusafi
2 dl BBQ sósa
2 dl olía

Allt nema olía sett í matvinnsluvél og látið vinnast vel saman. Olíu bætt saman við smátt og smátt. Þessi marinering nægir fyrir 8-10 bringur eða meira. Minnkið uppskriftina um helming ef um færri bringur er að ræða. Látið bringurnar liggja í marineringunni í 6 tíma. Grillið bringurnar á vel heitu grilli og pennslið með BBQ sósu.

Meðlæti:
Mexicó krydduð hrísgrjón með maís og grænmeti. Lárperumauk, salasa sósa og súrður rjómi. Gott salat skemmir ekki.

19 apríl 2010

Mangó og Appelsínusalsa með kjúklingabaunum

Sumarleg, köld sósa/salsa með fisk og grænmetisréttum.

400 ml Mango jalapeno Glaze frá Hot Spot (Hagkaup)
100 ml Appelsínusafi
1/2 Rautt Chili fínsaxað (ekki fræ)
120 gr Soðnar kjúklingabaunir -kældar
100 gr Blaðlaukur - fínsaxaður
100 gr Kjarnhreinsuð gúrka - fínsöxuð
1 stk Tómatur - fínsaxaður
50 ml Ólífuolía
2 Appelsínur - afhýddar, skornar í litla bita
Salt og Pipar

Öllu blandað saman.

11 apríl 2010

Luxus Hamborgarabrauð

Uppskrift:
3 dl Sjóðandi vatn
2 dl kartöflumauks-duft
1 dl kotasæla
2 msk sykur
2 msk ólífuolía
2 1/2 tsk ger
1 tsk salt
1 þeytt egg
10 dl hveiti
2 dl heilhveiti

Fyrir penslun:
1 þeytt egg
1 msk mjólk
Sesam fræ
Poppy fræ

Setjið kartöflumauksduftið (eins og notað er í kartöflumús) í skál og hellið sjóðandi vatninu saman við. Hrærið saman með sleif og látið kolna niður í 35-40 gráðu hita. Blandið öllu saman við, og hveitinu síðast, smátt og smátt. Hnoðið vel saman og látið hefast í skál undir plastfilmu í 50 mínútur. Takið úr skálinni og vinnið loft úr deiginu með því að hnoða létt á borðinu. Skiptið deiginu í litla bita sem vega 115 gr hver. Látið hvílast undir plastfilmu í 10 mínútur. Hnoðið hvern bita upp í fallega kúlu og komið fyrir á bökunarplötu með smjörpappír undir. Þristið létt á bollurnar með fingrunum til að gera þær flatar. Látið hvílast undir plasti aftur í 10 mínútur. Nótið þrjú mismunadi stóra útstungunarhringi til að mynda far í brauðin. Stingið gætilega níður í hálfar bollurnar -ekki alla leið. Penslið með eggja og mjólkurblöndu og stáið fræjunum yfir. Bakið í 20-25 mínútur við 180 gráðu hita.

09 febrúar 2010

Vatnsdeig

300 ml vatn
150 gr smjör
150 gr hveiti
1/2 tsk salt
4 egg

Hitið saman vatn og smjör. Hrærið salt og hveiti rösklega saman við þar til deigið sleppir pottinum. Kælið örlítið og hrærið egg saman við eitt og eitt í einu. Setjið á smjörpappír með skeið og bakið við 200 gráður þar til bollurnar hafa tekið fallegan lit.